Leit

New snacks on sale now for a limited time! Use code NEW for 15% off.

Græn framtíð með sjálfbærri og umhverfissvænni ræktun

Ísland er ekki gáfulegur staður til þess að rækta grænmeti, er það? Veðrið er vont, sólin skín sjaldan, jörðin er köld. En hvað ef ný tækni gerir Ísland að hinum fullkomna stað til þess að rækta grænmeti í hæsta gæðaflokki á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt allt árið um kring? Þetta er spurningin sem Andri Björn Gunnarsson, stofnandi VAXA, spurði sig þegar hann sat með vinum sínum á veitingastað í Reykjavík haustið 2016. Þetta var of spennandi og byltingarkennd hugmynd til þess að skilja hana eftir við matarborðið. Fræinu hafði verið sáð og fyrstu skrefin að stofnun VAXA voru tekin.

Í lóðréttum landbúnaði (e. vertical farming) eru matjurtir ræktaðar á mörgum hæðum með LED-ljósi og nýting á landi, orku og vatni þannig hámörkuð. Við trúum því að Ísland geti verið leiðandi á þessu sviði til framtíðar og að þannig megi draga til muna úr þörfinni á óumhverfisvænum innflutningi á grænmeti. Hér á landi er öll orka 100% endurnýjanleg, vatnið hreint og umhverfið eins og best verður á kosið til þess að rækta hreina, bragðgóða og auðrekjanlega hágæðavöru í mikilli nálægð við neytendur.

Undirbúningur og rannsóknarvinna stóð yfir í tvö ár og fyrsta ræktunin frá VAXA leit dagsins ljós í lok árs 2018. Uppskeran og viðtökurnar fóru strax langt fram úr okkar bestu væntingum. Í dag ræktum við nokkrar tegundir af salathausum, sprettur (e. microgreens) og kryddjurtir. Grænmetið okkar er notað á mörgum af bestu veitingastöðum landsins og er fáanlegt í öllum stærstu matvörubúðunum. Þá notaði kokkalandsliðið vörur frá VAXA þegar það vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum árið 2019.